Erlent

Lögreglan í Afganistan lagði hald á 237 tonn af hassi

Lögreglan í Afganistan hefur lagt hald á 237 tonn af hassi og mun þetta vera stærsti einstaki fíkniefnafundur í sögunni.

Lögreglan naut aðstoðar sérsveita breska hersins við að ná þessum fíkniefnum en þau voru tekin í borginni Kandahar í upphafi vikunnar. Umfang fíkniefnanna var það mikið að gripið var til þess ráðs að eyða þeim loftárás frá breskri orrustuþotu.

Einn af hershöfðingjum NATO í Afganistan segir að fíkniefnafundur þessi muni draga verulega úr getu Talibana til að kaupa sér vopn. Talið er að verðmæti hassins sem fannst sé um 3 milljarðar króna.

Afgangska lögreglan fékk ábendingu um hvar hassið væri geymt á mánudagsmorgun. Lét hún til skarar skríða seinna um daginn og voru þrír menn handteknir.

Stjórnvöld í Afganistan hafa lengi lengið undir gagnrýni um að gera ekki nóg til að stöðva fíkniefnaframleiðsluna í landinu og þá einkum ópíumframleiðsluna en sem stendur framleiðir Afganistan um 90% af öllu ópíum í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×