Innlent

Fólk yfirgefur sumarbústaði í Skaftárdal

Skaftá líkist nú Ólgusjó og óx í ánni um meter á aðeins tveimur tímum í morgun að sögn lögreglunnar á Kirkjubæjarklaustri. Hlaup í Skaftá tekur yfirleitt um hálfan sólarhring að ná hámarki. Rennsli árinnar við Sveinstind mældist um 300 rúmmetrar á sekúndu í morgun, þar sem meðalrennsli er í kringum fimmtíu rúmmetrar.









MYND/Guðmundur Ingi
Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum árinnar vegna brennisteinsmengunar. Björgunarsveitarmenn eru við Langasjó til að tryggja öryggi fólks og fylgjast með vatnavöxtum. Fólk sem dvaldi í þremur sumarbústöðum í Skaftárdal hefur yfirgefið þá, og nú er tekið að flæða yfir veginn sem að þeim liggur. Þá segir landvörður í Hólaskjóli vatnsmagn hafa aukist töluvert í ánni og megnan brennisteinsþef liggja yfir.







MYND/Guðmundur Ingi
Upprunastaður Skaftárhlaupa er undir Vatnajökli norðvestur af Grímsvötnum. Þar eru tvö jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts, en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins. Þessar lægðir eru kallaðar Skaftárkatlar. Að jafnaði hafa liðið rúm tvö ár milli hlaupa úr hvorum katli. Stórt hlaup kom úr Eystri-Skaftárkatli í april í fyrra og annað smærra í september. Nú er talið líklegt að hlaup sé úr vestari katlinum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×