Erlent

Amnesty skorar á stríðsaðila í Georgíu

MYND/AP
Alþjóðlegu mannúðarsamtökin Amnesty International hafa sent frá sér áskorun til stríðandi fylkinga í Georgíu þess efnis að báðir aðilar geri allt sem í þeirra valdi sé til þess að hlífa almennum borgurum við stríðsrekstrinum. Samtökin krefjast þess að Georgíumenn og Rússar virði alþjóðasamninga þess efnis að borgurum sé hlíft en á því hefur verið mikill misbrestur undanfarna daga.

Í áskoruninni er sagt að þótt tölum beri ekki saman sé ljóst að mikið mannfall hefur orðið á meðal almennra borgara í átökunum og að báðir aðilar séu sekir í þeim efnum. Samtökin taka dæmi af Tskhinvali, höfuðborg Suður-Ossetíu, en þar er ljóst að mannfall hefur orðið þegar georgískir hermenn réðust á borgina og vörpuðu sprengjum á íbúðarhús, leikfangaverslun, háskóla og spítala. Rússar gerðust sekir um svipað athæfi í gær þegar þeir vörpuðu sprengjum á íbúðahverfi í georgísku borgina Gori.

Amnesty segist óttast að sumar árásinna síðustu daga megi telja til stríðsglæpa. Þar að auki benda samtökin á þá skyldu stríðsaðila að flóttamönnum sé gert kleift að forða sér frá átakasvæðum og að hjálparstarfmönnum sé gert mögulegt að starfa á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×