Innlent

Samið við nokkur Persaflóaríki um fríverslunarsamning

MYND/Pjetur

Íslendingar hafa ásamt öðrum EFTA-ríkjum náð samkomulagi við samstarfsráð Persaflóaríkja um fríverslunarsamning. Innan samstarfsráðs Persaflóaríkja eru Barein, Katar, Kúveit, Óman, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Eftir því sem segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu stóðu samningaviðræður yfir í tæplega tvö ár en þeim lauk í gær. Fríverslunarsamningurinn gerir ráð fyrir að tollar á sjávarafurðum og öllum helstu iðnaðarvörum frá Íslandi falli niður frá gildistöku samningsins. Tollar á lýsi munu þó falla niður að loknum fimm ára aðlögunartíma.

Þá geta íslenskir bændur flutt út lambakjöt til ríkjanna tollfrjálst og jafnframt munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðarvörum. Fríverslunarsamningurinn gerir ráð fyrir auknu frjálsræði í þjónustuviðskiptum og til viðbótar munu ríkin semja síðar um leiðir til að stuðla að auknum fjárfestingum.

Samningurinn verður undirritaður við fyrsta tækifæri. Að lokinni undirritun þarf að fullgilda hann í einstökum EFTA-ríkjum og Persaflóaríkjum svo hann öðlist gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×