Erlent

Aðgerðir þarf til að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisins

Hið alþjóðlega fjármálakerfi rambar á barmi hruns og því er þörf á sameiginlegu átaki gegn því, sagði Dominique Strauss-Kahn, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í dag eftir fund með fjármálaráðherrum sjö helstu iðnríkja heims, Bandaríkjaforseta og forsvarsmönnum Alþjóðabankans.

 

Fundað var í Washington þar sem fram fer ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Stjórnvöld í vestrænum ríkjum hafa á síðustu vikum gripið til ýmissa aðgerða til þess að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot banka og hrun efnahagslífsins en Strauss-Kahn sagði að enn hefði ekki tekist að skapa traust á mörkuðum. Áhyggjur af stærstu fjármálastofnunum Bandaríkjanna og Evrópu hefðu leitt til þess að hið alþjóðlega fjármálakerfi rambaði á barmi hruns.

 

 

Því þyrfti frekari aðgerðir af hálfu ríkjanna og mun fimm atriða samkomulag sem gert var í gær vera hluti af því. Strauss-Kahn sagði þó að hér þyrfti samstillt átak þróuðu ríkjanna og annarra ríkja í heiminum. Enn fremur væri Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiðubúinn að aðstoða ríki í vandræðum, en rætt hefur verið um að sjóðurinn aðstoði hugsanlega íslensk stjórnvöld.

 

Bandarísk stjórnvöld hafa þegar ákveðið að kaupa hluti í bönkum til að forða þeim frá hruni og þá hittast leiðtogar evruríkjanna í París á morgun til að ræða samhæfðar aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×