Innlent

Hætt við mikla uppbyggingu að Keilugranda 1

MYND/Stöð 2

Hugmyndum um mikla uppbygginu á lóðinni við Keilugranda 1 var hafnað á fundi borgarráðs í dag og var skipulagsstjóra falið að vinna með umsækjendum að nýjum hugmyndum í stað þeirra sem hafnað var. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn.

Eins og fram hefur komið í fréttum voru uppi áform um að byggja níu hæða hús á reitnum við Keilugranda 1 með 130 íbúðum. Skipulagsráð ákvað nýverið að leggjast gegn uppbyggingarhugmyndunum og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði í dag. Segir Dagur að það sé í samræmi við afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna við vinnslu málsins.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu Dags að borgarráð hafi einnig ákveðið að auglýsa nýtt skipulag á Ingólfstorgi. Þar er gert ráð fyrir að flytja gömul hús á torgið og enn fremur hefur verið komið til móts við sjónarmið tónleikahaldara með því að byggja nýjan tónleikasal á NASA neðanjarðar í stað þess sem rifinn verður.

Sú hugmynd sé í samræmi við sameiginlegan metna meiri- og minnihluta í skipulagsráði og þann undirbúning sem átt hafi sér stað í tíð hundrað daga meirihlutans svokallaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×