Innlent

Vill að formaður Landverndar víki vegna setu í stjórn Landsvirkjunar

Prófessor við Háskólann á Akureyri krefst þess að formaður Landverndar segi af sér þar sem hann er orðinn varamaður í stjórn Landsvirkjunar. Hann segir náttúruverndarsinnum brugðið og það rýri traust Landverndar að formaður samtakanna sitji beggja megin borðsins.

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, varð varastjórnarmaður Landsvirkjunar síðastliðinn föstudag. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri, gagnrýnir þetta harðlega á heimasíðu sinni og krefst þess að Björgólfur segi af sér hið fyrsta.

Hann spyr hvort Björgólfur hyggist áfram berjast með náttúruverndarsinnum gegn álveri á Bakka við Húsavík og tilheyrandi virkjunum og vinna síðan að gagnstæðum markmiðum á stjórnarfundum Landsvirkjunar. Náttúruverndarsinnum sé brugðið og það rýri traust Landverndar að formaður samtakanna sé varamaður í stjórn Landsvirkjunar.

Björgólfur svarar þessu á heimasíðu Ingólfs og segir að Samfylkingin hafi beðið sig um að sitja í varstjórn sem talsmaður náttúruverndarsjónarmiða. Hann gaf það hins vegar ekki upp hver það var innan Samfylkingarinnar. Hann segir kostina þá að hægt sé að gera náttúruverndinni hærra undir höfði innan stjórnar fyrirtækisins og þar sé ákveðið tækifæri til að koma náttúruverndarsjónarmiðum að.

Björgólfur segir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hann hyggist áfram starfa sem formaður Landverndar þrátt fyrir þetta. Málið verður tekið fyrir á stjórnarfundi Landverndar á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×