Innlent

Palestínska flóttafólkið á leiðinni

Íslenska sendinefndin í Al Waleed flóttamannabúðunum í júní ásamt hermönnum fjölþjóðahers SÞ.
Íslenska sendinefndin í Al Waleed flóttamannabúðunum í júní ásamt hermönnum fjölþjóðahers SÞ.

Palestínska flóttafólkið frá Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak kemur til landsins á mánudagskvöldið eftir langt ferðalag frá Írak í gegnum Sýrland. Um er að ræða 29 manns og verður þeim ekið beint til sinna nýju heimkynna á Akranesi.

Íslensk stjórnvöld, Akranesbær og Rauði krossinn sjá um móttöku fjölskyldnanna. Fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossinum að fólkið mun taka þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Akranesbær útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, íslenskunám og samfélagsfræðslu. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.

Rauði krossinn útvegar fólkinu húsgögn og annað nauðsynlegt innbú. Stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða krossins munu aðstoða fólkið við að tengjast samfélaginu og verða því innan handar við ýmislegt sem getur komið upp við aðlögun í nýju landi.

Frá árinu 1996 hafa stjórnvöld tekið á móti 306 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög í landinu. Alls hafa 510 flóttamenn fengið hæli á Íslandi frá árinu 1956.












Tengdar fréttir

Fengu ekki að gista í flóttamannabúðunum

Formaður íslensku sendinefndarinnar sem segir ferðina til Íraks hafa eftir atvikum gengið vel. Vegna ótryggs ástands var nefndinni ekki leyft að dvelja í flóttamannabúðunum að nóttu til.

Palestínsk flóttakona segir ástandið í Al-Waleed búðunum skelfilegt

29 palestínskir flóttamenn eru væntanlegir til Íslands frá Al-Waleed flóttamannabúðunum á landamærum Íraks og Sýrlands. Á fréttavef Reuters er grein um þessar búðir og viðtal við Wedad, 30 ára gamla ekkju sem er á leið hingað til lands. Hún segir ástandið í búðunum skelfilegt og mjög erfitt fyrir börn sín.

Sendinefndin farin til Íraks að hitta flóttafólk

Íslensk sendinefnd lagði í dag af stað til Íraks til að taka viðtöl við flóttafólk sem boðið verður hæli hér á landi nú í haust. Sendinefndin verður í Írak í viku og sagðist Sólveig Ólafsdóttir hjá Rauða kross Íslands í ljósi þess að reynslan sýni að það hafi reynst börnum úr hópi flóttafólks erfitt að byrja nám sitt eftir að skólaárið er hafið ,,vonast til þess að hópurinn komi til landsins í ágúst."

Átta palestínskar fjölskyldur koma til landsins

Átta palestínskum fjölskyldum verður boðið hæli hér á landi samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Um er að ræða tíu konur, allar einstæðar mæður, og 19 börn.

Palestínumennirnir koma fyrir miðjan september til Akraness

Undirbúningur er nú á lokastigi fyrir komu hinna 29 palestínsku flóttamanna til Akranesskaupstaðar. Ekki er komin nákvæm dagsetning fyrir komu þeirra en verður það í allra síðasta lagi um miðjan september að sögn Lindu Björk Guðrúnardóttur verkefnastjóri vegna komu flóttamannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×