Viðskipti innlent

Löng bið verður í tvöföldun á gjaldeyrisvarasjóðnum

Greining Glitnis telur að menn þurfi að bíða mánuðum saman eftir því að Seðlabankinn tvöfaldi gjaldeyrisvarasjóð sinn eins og til stendur. Og raumar megi leiða líkum að því að þegar Davíð Oddsson tekur loks af skarið muni þörfin fyrir þessa aukningu hafa minnkað að mun.

Greining fjallar um málið í Morgunkorni sínu þar segir að Seðlabankinn og stjórnvöld liggja nú undir ágjöf úr mörgum áttum fyrir aðgerðaleysi gagnvart þeim erfiðu aðstæðum sem hafa skapast á fjármálamörkuðum. Frá því að forsætisráðherra gaf til kynna að til stæði að allt að tvöfalda gjaldeyrisforðann til að bregða frekari stoðum undir fjármálakerfið undir lok síðasta mánaðar hafa markaðir verið í biðstöðu.

Biðin eftir víðtækari aðgerðum gæti orðið lengri en í fyrstu var gefið til kynna. Á fréttamannafundi sem haldinn var í kjölfar vaxtaákvörðunar í síðustu viku tók Davíð Oddsson Seðlabankastjóri undir að eðlilegt væri að stækka gjaldeyrisforðann um allt að helming en sagði einnig að slíkar aðgerðir væru skilyrtar því að hagstæðari skilyrði myndu skapast á alþjóðlegum lánamörkuðum.

 

„Ljóst er að sá tími sem gæti liðið þar til skilyrðin verða hagstæðari gæti verið mældur í mánuðum en ekki vikum. Raunar helst í hendur að þegar kemur að því að kjör batna verulega á lánsfjörmörkuðum mun þörfin fyrir stórtækar aðgerðir Seðlabanka hafa minnkað, þar sem slíkur bati lánskjara á sér varla stað fyrr en alþjóðlega lánsfjárkreppan gengur niður," segir í Morgunkorni Glitnis.

 

 

Þrátt fyrir að markaðir, lánshæfismatsfyrirtækin og fleiri aðilar bíði nú aðgerða frá Seðlabankanum og stjórnvöldum og horfi helst til aukningar gjaldeyrisforðans í því sambandi má ekki gleyma þeim aðgerðum sem Seðlabankinn hefur nú þegar lagt upp með.

Auk þess að gefa út sérstök innstæðubréf fyrir samtals 43,6 milljarða kr. hefur Seðlabankinn rýmkað reglur um aðgang fjármálafyrirtækja að lánsfé í bankanum, meðal annars með því að afnema bindiskyldu fyrir erlendan rekstur íslensku viðskiptabankanna.

Þessar aðgerðir eru allar jákvæðar og í takti við það sem seðlabankar víða um heim hafa gert til að bregðast við fjármálakreppunni sem nú skekur alþjóðamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×