Innlent

N1 dregur eldsneytishækkanir tilbaka

MYND/GVA

N1 lækkaði eldsneytisverð nú síðdegis en félagið hafði hækkað verð á bensínlítra um tvær krónur og dísilolíu um eina krónu fyrr í dag. Samsvaraði lækkunin þeirri hækkun sem varð fyrr í dag.

Rökin fyrir hækkuninni í morgun var sú að íslenska krónan hefði lækkað töluvert gagnvart Bandaríkjadollara. Forsvarsmenn FÍB, Félags íslenskra bifreiðaeigenda, brugðust hins vegar ókvæða við þessari röksemdafærslu og bentu á að heimsmarkaðsverð á olíu hefði einnig lækkað umtalsvert.

FÍB benti á að kostnaðarverð á hvern lítra af bensíni og dísilolíu sé svipað og það var snemma í liðnum maí. Nýja verðið hjá N1 frá því í morgun var nærri tíu krónum hærra á hvern bensínlitra miðað við verðið eins og það var fyrir þremur mánuðum og dísillítrinn væri hvorki meira né minna en um átján krónum dýrari.

Vildi FÍB halda því fram að núverandi eldsneytisverð væri í engum takti við raunveruleikann.

Lítri af bensíni hjá N1 kostar nú í sjálfsafgreiðslu 166,7 krónur og dísilolía kostar 183,6 krónur lítrinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×