Handbolti

Ásgeir: Maður kemur sterkari út úr þessu

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Leikmenn Íslands fagna sigrinum.
Leikmenn Íslands fagna sigrinum.
Ásgeir Örn Hallgrímsson stóð sig vel í dag líkt og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins. Hann var mjög ósáttur við sjálfan sig er hann skaut boltanum í slána undir lok leiksins gegn Kóreu þegar Ísland hefði getað jafnað. Þá vippaði hann í slána og hann fór beint aftur í vippuna í fyrsta skoti áðan.

"Þetta var löngu planað," sagði Ásgeir og hló. "Maður varð að mæta óttanum og vippa aftur. Það var pressa á mér að standa mig og ég er ánægður með þetta. Ég var helvíti langt niðri eftir Kóreuleikinn en maður kemur sterkari út úr þessu."

"Ég komst ekki í takt í byrjun. Var allt of æstur og ætlaði að verja alla bolta. Svo náði ég hjartslættinum niður og komst vel í gírinn," sagði Hreiðar Guðmundsson markvörður sem fann sig mjög vel eftir því sem leið á leikinn gegn Dönum en hann byrjaði leikinn á bekknum.

"Það er snilld að vera búinn að tryggja átta liða úrslitin. Mér er alveg sama hvaða lið við fáum. Það verður bara verkefni eins og hvert annað. Þýðir ekkert að segja að maður vilji alls ekki fá hitt eða þetta liðið. Svo mætum við því liði og maður kemur ekkert sérstaklega vel út," sagði Hreiðar brosmildur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×