Viðskipti innlent

Straumur telur ekki ástæðu til afskipta ríkisins af bankanum

„Straumur hefur látið yfirvöldum í té ítarlegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu bankans. Bankanum er ekki kunnugt um að staða hans þyki gefa tilefni til afskipta af því tagi sem heimiluð eru í ofangreindum lögum. Straumur mun hér eftir sem hingað til veita eftirlitsaðilum allar þær upplýsingar sem óskað er eftir."

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straumi vegna lagafrumvarps þess sem lagt var fram og samþykkt á Alþingi í gær, þar sem eftirlitsaðilum eru veittar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja.

"Fjárhagsleg staða Straums er sterk, eiginfjárhlutfallið hátt og umtalsvert lausafé fyrir hendi. Við höldum því áfram að vinna að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, þrátt fyrir það mikla umrót sem orðið hefur að undanförnu," segir William Fall, forstjóri Straums.

Á þessu stigi er ekki unnt að áætla hvaða áhrif hugsanlegt inngrip yfirvalda í starfsemi annarra fjármálafyrirtækja kynni að hafa á Straum.

Straumur ætlar sér að standa við kaupin á Landsbanki Securities (UK) Limited, Landsbanki Kepler og Merrion Landsbanki og gerir ráð fyrir að þau gangi eftir samkvæmt áætlun.

Öll innlán hjá Straumi á Íslandi eru að fullu tryggð af hálfu íslenskra stjórnvalda. Innlán hjá útibúum og dótturfélögum Straums í Danmörku, Tékklandi og Finnlandi njóta sömu trygginga og gilda almennt í þeim löndum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×