Erlent

Refsiaðgerðum gegn N-Kóreu aflétt

Bandarísk stjórnvöld ætla að taka Norður-Kóreu af lista sínum yfir ríki sem styðja hryðjuverkasamtök. Norður-Kóreumenn hafa afhent viðsemjendum ítarlega skýrslu um kjarnorkuáætlun sína.

Vesturveldin á nágrannar Norður-Kóreumanna í Asíu átti lengi í viðræðum við ráðamenn í Pyongjang. Krafan var sú að þeir legðu kjarnorkuáætlun sína á hilluna. Óttinn var sá að tæknina ætti að nota til að smíða kjarnorkuvopn.

Í febrúar í fyrra sömdu Norður-Kóreumenn um að leggja kjarnorkuáætlun sína á hilluna í skiptum fyrir efnahagsaðstoð. Fyrir hálfu ári áttu ráðamenn í Pyongjang að afhenda skýrsluna. Það gerður þeir í morgun en þá létu þeir fulltrúa Kínverskra stjórnvalda fá hana. Sérfróðir segja að líkast til sé að finna í þessum gögnum verði að finna ítarlegar upplýsingar um tilraunir Norður-Kóreumanna til að auðga úran.

Háttsettum bandarískum sendifulltrúum og fréttamiðlum víða að hefur verið boðið að fylgjast með því þegar kæliturninn í Yongbyon- kjarnorkuverinu verður lokað á morgun. Slökkt hefur verið á kjarnaofninum þar.

Þegar ljóst var að skýrslan hafði borist Kínverjum tilkynntu bandarísk stjórnvöld að Norður Kórea yrði tekin af lista yfir þau ríki sem Bandaríkjamenn telja að styðji við hryðjuverkastarfsemi. Refsiaðgerðum verður þá endanlega aflétt.

Sérfræðingar segja erfitt verk fram undan þótt skýrslan hafi verið lögð fram. Eftir sé að semja um hvað gert verði við þau kjarnorkuvopn eða efni til framleiðslu þeirra sem Norður-Kóreumenn hafi hugsanlega komið sér upp birgðum af.

Ekki er talið að í skýrslunni frá í morgun sé að finna upplýsingar um slíkar birgðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×