Erlent

Eftirlitsmenn komnir til Georgíu

Óli Tynes skrifar

Rússar eru tregir til þess að yfirgefa allar stöðvar sínar í Georgíu þrátt fyrir að hafa undirritað vopnahléssáttmála sem felur í sér að þeir eigi að flytja þaðan allt sitt herlið.

Þeir hafa til dæmis einhliða tekið sér rúmlega sex kílómetra breitt belti við landamærin að Suður-Ossetíu. Rússar kalla það öryggisbelti.

Í gær sögðu þeir að eftirlitsmenn Evrópusambandsins fengju ekki aðgang að þessu belti.

Þegar á reyndi í dag voru Rússar hinsvegar hinir ljúfstu og hleyptu eftirlitsmönnunum strax inn. Fréttamenn fengu hinsvegar ekki að fylgja þeim eftir.

Einn eftirlitsmannanna sagði við fréttamann Reuters að rússneskur majór hefði sagt sér að allt væri rólegt og gott inn á þessu svæði.

Engu að síður fögnuðu Georgíumenn á svæðinu mjög þegar þeir sáu eftirlitsmenn Evrópusambandsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×