Innlent

Búið að skoða þriðjung húsa vegna jarðskjálfta

Viðlagatrygging hefur lokið við að skoða um þriðjung af tvö þúsund og tvö hundruð húseignum sem tilkynnt var um tjón á vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi í lok maí og hefur greitt út 1,4 milljarða í bætur. Um þrjátíu húseignir hafa verið dæmdar ónýtar, þar af fjórtán á Selfossi.

Eignatjónið í jarðskjálftunum á Suðurlandi í maí síðast liðnum var mun meira en í jarðskjálftunum þar árið 2000 og hleypur á milljörðum króna.

Samanlagt er búið að greiða 755 milljónir vegna innbús og 630 vegna húseigna og enn berast tilkynningar um tjón.

Sigurbjörg Óskarsdóttir og Brynjólfur Gestsson eru ein þeirra sem misstu húsið sitt í jarðskjálftanum og í dag gengu þau á fund byggingafulltrúa bæjarins til að ganga endanlega frá sínum málum, en þau hafa nú þegar fest kaup á nýju húsi.Sigurbjörg var ein heima þegar skjálftin reið yfir og segir að allt hafi hrunið úr hillum og ísskáp og allar skúffur opnast.

Sigurbjörg og Brynjólfur flytja í nýtt hús um mánaðamótin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×