Innlent

Eftirlýstur Pólverji á eftir að afplána nærri fimm ára dómi

MYND/GVA

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir pólskum karlmanni sem handtekinn var hér á landi að ósk pólskra yfirvalda. Maðurinn var eftirlýstur í Schengen upplýsingakerfinu vegna nokkurra dóma sem hann hefur hlotið í Póllandi fyrir rán, þjófnað og brot gegn þarlendum ávana- og fíkniefnalögum.

Segir í kröfu lögreglunnar um gæsluvarðhald að af gögnum málsins megi ráða að um sé að ræða fjóra dóma og á hann eftir að afplána tæplega fimm ára fangelsi vegna þeirra. Maðurinn sagði við yfirheyrslur að hann hefði verið í þeirri trú að málum hans hefði verið lokað. Hér lifði hann góðu lífi.

Í gæsluvarðhaldsbeiðninni segir að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru mannsins til þess að geta komið honum til pólskra yfirvalda en þau hafa enn ekki sent formlega framsalsbeiðni. Ætla megi að þess verði ekki langt að bíða að beiðnin berist.

Héraðsdómur féllst á gæsluvarðhaldskröfu til 26. ágúst en þeirri ákvörðun áfrýjaði maðurinn til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×