Innlent

Verðbólgan 11,8 prósent - hefur ekki verið meiri í 18 ár

Verðbólgan á Íslandi mældist 11,8 prósent í apríl eftir að vísitala neysluverðs hafði hækkað um 3,4 prósent á milli mánaða. Hefur hún ekki verið hærri í nærri átján ár.

Verðbólgan var 8,7 prósent í síðasta mánuði en ýmislegt kemur til hækkunar neysluverðsvísitölunni. Fram kemur á vef Hagstofunnar að gengissig íslensku krónunnar undanfarið hafi skilað sér mjög hratt út í verðlagið.

Hækkaði verð á innfluttum vörum um 6,2 prósent í mánuðinum og hafði það áhrif til hækkunar á vísitölunni um 2,1 prósent. Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 7,1 prósent, þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 11 prósent og á bensíni og olíum um 5,2 prósent. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 6,4 prósent en þar af hækkaði verð á mjólk og mjólkurvörum um 10,2 prósent.

Sem fyrr segir hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,8 prósent síðastliðna tólf mánuði sem en verðbólga án húsnæðis er 10,6 prósent. Ef horft er til síðastliðinna þriggja mánaða hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4 prósent sem jafngildir 28 prósenta verðbólgu á ári .

Mánaðarbreyting vísitölu neysluverðs hefur ekki verið meiri frá júlí 1988 en þá hækkaði hún um 3,5 prósent og fyrir vísitöluna án húsnæðis frá janúar 1985 en þá hækkaði hún um 4,8 prósent. Miðað við tólf mánaða breytingu vísitölunnar hefur verðbólgan ekki mælst meiri síðan í september 1990. Þá reyndist hún tólf prósent.

Verðbólgan nú er mun meiri en stóru viðskiptabankarnir höfðu spáð. Kaupþing hafði spáð tíu prósenta verðbólgu í apríl, Landsbankinn 10,1 prósents verðbólgu og Glitnir 10,2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×