Skoðun

Segjum atvinnuleysi stríð á hendur

Þór Sigfússon skrifar

Látum engan segja okkur að hér þurfi að koma til stórfellds atvinnuleysis þar sem tugir þúsunda manna ganga um atvinnulausir. Segjum atvinnuleysi stríð á hendur. Það ríkir alger einhugur meðal atvinnurekenda og launþega um að varðveita það samfélag sem hér hefur byggst upp og standa saman um að sem flestar vinnufærar hendur hafi eitthvað fyrir stafni. Þannig höldum við góðri vinnumenningu hérlendis sem atvinnulífið og samfélagið allt hafa mikinn hag af.

Ísland hefur ávallt státað af því að búa við lítið atvinnuleysi. Með sveigjanleika í atvinnulífinu er hægt að bregðast skjótt við aðstæðum. Nú þurfum við að sýna hvað í okkur býr og að samtakamáttur getur skipt miklu máli. Hátt atvinnustig og fjöldi útlendinga á vinnumarkaði auðvelda aðlögun að minnkandi atvinnu hérlendis. Breytt samskipti á vinnumarkaði, milli starfsmanna og fyrirtækja, gera okkur betur kleift að takast á við minni atvinnu.

Afsprengi þessa nána samstarfs birtist nú m.a. í því að starfsfólki eru boðin hlutastörf þar sem þeim verður við komið.

Nýtum fjölbreytta flóru skóla til að fjölga menntaleiðum og um leið að standa fyrir nýsköpun hvers konar. Eflum vinnumiðlanir og Útflutningsráð til að liðsinna fólki og fyrirtækjum við að finna tækifæri og störf erlendis. Hvetjum til forgangsröðunar í framkvæmdum þar sem meiri áhersla er lögð á vinnuaflsfrekar framkvæmdir líkt og Reykjavíkurborg hefur gert. Hvetjum Íslendinga, sem fest hafa fé erlendis, til þess að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og nýsköpun.

Keppum að þessu og afsönnum að stórfellt atvinnuleysi sé lögmál við þær aðstæður sem við búum nú við.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×