Innlent

Vandi að finna urðunarstað fyrir mengaðan botn Tjarnarinnar

Erfitt er að finna urðunarstað fyrir mengaðan botn Tjarnarinnar að sögn Egils Arnar Jóhannessonar, formanns heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar. Fundað var í nefndinni síðastliðinn fimmtudag þar sem staða mengunarmála Tjarnarinnar var kynnt sem og tillögur að úrlausnum.

Náttúrufræðistofa Kópavogs gaf nýverið út skýrslu um mengunarmál við Tjörnina að beiðni umhverfis-og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Kom fram í skýrslunni að mikil mengun væri í Tjörninni, þar á meðal þungmálma- og saurgerlamengun.

„Ein af tillögunum sem komið hefur fram er að fjarlægja efsta lag botnar tjarnarinnar en þá vaknar upp spurningin hvar á að setja það? Það þarf að finna svæði þar sem hægt er að urða það á öruggan hátt," segir Egill. Unnið er nú að því að finna viðeigandi stað fyrir hinn mengaða botn að sögn Egils en ræða þarf við önnur bæjarfélög til þess að finna þann stað.

Ákveðið verður á næsta fundi heilbrigðisnefndar í hvaða framkvæmdir verður farið til þess að sporna við mengun í Tjörninni. Verður sú ákvörðun tekin í samráði við umhverfis-og samgönguráð sem fundar í næstu viku.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×