Viðskipti innlent

Burt með krónuna segir Björgólfur

Niðursveiflunni í efnahagslífinu er hvergi nærri lokið segir Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann telur tímabært að skipta út krónunni.

Björgólfur hélt ræðu á aðalfundi Straums-Burðaráss í dag en þar er hann stjórnarformaður. Björgólfur ræddi þá erfiðleika sem nú mæta fyrirtækinu líkt og flestum öðrum fjármálafyrirtækjum hér á landi. Björgólfur segir Ísland orðið miklu stærri hluta af alþjóðahagkerfinu en áður. Ísland verði því að vera í stakk búið að takast á við erfiðleika ef þeir steðja að. Björgólfur segir bæði fyrirtæki og stjórnmálamenn kannski hafa vanmetið hversu djúp og mikil þessi tenging við alþjóðahagkerfið er orðin. Þeir hafi þannig talið að Íslendingar hefðu betri tök á að leysa úr erfiðum aðstæðum en þeir raunverulega hafa. Íslendingar séu búnir að sprengja sín mörk og því kannski ekki í jafn góðu ástandi til að takast á við erfiðleikana sjálfir.

Hann lagði mikla áherslu á hversu erfiður óstöðugleiki krónunnar hafi reynst fyrirtækinu og segir löngu tímabært að skipta henni út fyrir aðra stöðugri mynt.

Björgólfur telur niðursveiflunni í efnahagslífinu hvergi nærri lokið. Niðursveiflan sé af þeirri stærðargráðu og af þeim toga að langan tíma taki að vinda ofan af ástandinu, í það minnsta fram að áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×