Innlent

Nærri 5700 skráðir til leiks í Reykjavíkurmaraþon

Tæplega 5700 manns hafa skráð sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþon Glitnis sem fram fer á laugardag.

Eru það nokkuð fleiri en höfðu skráð sig á sama tíma í fyrra en reynslan er sú að flestar skráningar í hlaupið berast síðustu dagana. 25 ár eru frá því að Reykjavíkurmaraþonið fór fyrst fram en þá voru þátttakendur 250. Í fyrra voru þeir 11.500 og er jafnvel búist við að það met verði slegið í ár.

Þær skráningar sem fyrir liggja benda til þess að flestir ætli að hlaupa 10 kílómetra í ár en í gærkvöldi höfðu 1985 skráð sig í þá vegalengd. Ríflega þúsund höfðu skráð sig í hálft maraþon, 752 í þriggja kílómetra hlaup og 616 höfðu skráð sig til þátttöku í heilu maraþoni. Þá eru um 1300 börn skráð í Latabæjarhlaupið.

„Erlendum þátttakendum hefur farið fjölgandi í Reykjavíkurmaraþoninu á síðustu árum og er óhætt að segja að Reykjavíkurmaraþon Glitnis 2008 verði mjög alþjóðlegt hlaup, því alls hafa hlauparar af 48 þjóðernum skráð sig til leiks. Af erlendum hlaupurum eru flestir skráðir frá Bretlandi eða 136, Bandaríkjamenn eru næst flestir 134, í þriðja sæti eru 133 Kanadamenn í fjórða Þjóðverjar með 131 þátttakanda," segir í tilkynningu aðstandenda hlaupsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×