Innlent

Orkuveitan hyggst selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í dag að selja 16,58% eignarhlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja. Fól stjórnin stjórnarformanni og forstjóra að leita eftir tilboðum. Haft verður samráð við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði með það fyrir augum að kanna hvort hagkvæmt sé að hafa samstarf um söluna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar segir ennfremur að Orkuveitan hafi keypt hlutinn í HS um mitt ár 2007 og sé bókfært virði hans 8,67 milljarðar króna.

„Allt frá því í febrúar 2008, þegar Orkuveitu Reykjavíkur barst andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna, hefur staða eignarhlutarins verði í uppnámi. Samkvæmt niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála mátti Orkuveita Reykjavíkur ekki eiga nema 10% í HS. Með því útilokaðist einnig að Orkuveita Reykjavíkur gæti látið áður áformuð kaup á u.þ.b. 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitunni. Ágreiningur Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar er fyrir dómstólum," segir í tilkynningunni.

Allt frá því viðhorf samkeppnisyfirvalda lá fyrir hafi stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fengist við það að greiða úr málum þannig að skilyrði samkeppnisyfirvalda yrðu uppfyllt, hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur gætt og leitast væri við að greiða úr ágreiningi við Hafnarfjarðarbæ.

Málið hafi verið til umræðu innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur allt þetta ár og á fundi sínum í dag áréttaði stjórnin áform sín um að selja eignarhlutinn.

„Í samræmi við lög, sem sett voru á Alþingi síðastliðið vor, verður Hitaveitu Suðurnesja skipt upp nú um áramótin í HS Orku hf. og HS Dreifingu hf. og verður eignarhlutur OR 16,58% í hvoru félagi. Áformað er að selja hluti Orkuveitu Reykjavíkur í báðum félögum.

„Það hefur legið fyrir allt þetta ár að það þarf að höggva á hnúta í þessu máli. Besta leiðin til þess er að selja hlutinn. Orkuveita Reykjavíkur hefur metnaðarfull uppbyggingaráform í umhverfisvænni orkuframleiðslu. Fjármögnun þeirra er erfið nú um stundir og sala á hlutnum léttir vissulega undir með okkur," segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×