Skoðun

Á bara að spila fyrri hálfleikinn?

Tryggvi Gunnarsson skrifar
Undanfarna mánuði hafa lögregluembættin á Norðurlandi verið í átaki vegna fíkniefna. Aldrei áður hafa komið upp fleiri fíkniefnamál og ekki hefur verið lagt hald á meira efni en í þessu átaki. Hafa lögreglumenn gert víðreist svo sem í skólum, heimavistum, pósthúsum, flugvöllum, heimilum og víðar. Það má því með sanni segja að átakið er að skila tilteknum árangri.

Ég mun seint hætta að taka hattinn ofan fyrir þessum lögregluembættum sem leggja allt sitt að veði að halda þessum vágesti frá framtíð landsins. Með þessum orðum er ég ekki að segja að unga fólkið okkar sé eingöngu að nota fíkniefni, það er langur vegur frá.

Nú berast þær fréttir að líklega mun þetta átak leggjast af um áramót. ástæðan er talin vera skortur á fjármagni. Ég sem gamall keppnismaður í knattspyrnu vill líkja þessu við að nú sé fyrri hálfleik að ljúka og staðan sé 5-0 fyrir okkur. En í upphafi seinni hálfleiks taka þjálfaranir til sinna ráða og skipta út öllu liðinu og setja inn varaliðið og vona það besta þ.e.a.s. halda góðri stöðu. Undantekningalaust gengur það ekki upp, andstæðingunum vex ásmegin og rétta stöðu sína af áður en leik lýkur og jafnvel stela sigrinum í lokin. Þetta má ekki gerast, við verðum að spila með okkar besta lið allan tímann.

Það vekur hjá mér óhug ef átakinu verður ekki haldið áfram, því langar mig að spyrja ykkur, hvað kostar svona átak? Er höggvið stórt skarð í fjárhags­­áætlun ráðuneytisins með svona átaki? Hvað með framhaldið?

Höfundur er sölumaður.




Skoðun

Sjá meira


×