Erlent

Efnahagslægð á Spáni dregur úr fjölda innflytjenda

Ólöglegir innflytendur á Spáni hafa mátt dúsa í lokuðum búðum meðan mál þeirra eru til meðferðar.
Ólöglegir innflytendur á Spáni hafa mátt dúsa í lokuðum búðum meðan mál þeirra eru til meðferðar. MYND/AP

Versnandi efnahagsaðstæður á Spáni hafa meðal annars leitt til þess að innflytjendum frá Afríku sem reyna að koma til landsins hefur fækkað.

Frá þessu greindu spænsk stjórnvöld í dag. Fram kom í nýjum tölum stjórnvalda að níu prósentum færri ólöglegir innflytjendur hefðu komið siglandi yfir Miðjarðarhafið á fyrstu sjö mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra. Benda stjórnvöld á að erfiðara sé nú að fá vinnu og húsnæði í landinu og það hafi áhrif.

Líklegt er þó að fækkunina megi einnig rekja til aukinnar loft- og strandgæslu við Spán en ráðist var hana eftir að gríðarlegur fjöldi innflytjenda hafði reynt að komast inn í landið árið 2006. Þá voru tæplega 14 þúsund ólöglegir innflytjendur gripnir á bátum frá Afríku en þeir voru sjö þúsund í fyrra. Þúsundir Afríkubúa látast ár hvert þegar þeir reyna að komast til Evrópu á yfirfullum og jafnvel lekum bátum í von um betra líf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×