Erlent

Friðargæsluliðar misnota börn

Save the Children. Mynd/ AFP.
Save the Children. Mynd/ AFP.

Börn á stríðshrjáðum svæðum eru misnotuð af friðargæsluliðum sem eiga að gæta öryggis þeirra. Þetta segir í nýrri skýrslu hjálparsamtakanna Save the Children.

Samtökin segja að rannsókn sem gerð var á Fílabeinsströndinni, í suðurhluta Súdan og á Haíti bendi til þess að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til að fást við þetta vandamál. Þá segja samtökin að barnamisnotkunin fari leynt og ekki sé refsað fyrir slík athæfi því að börnin séu of hrædd við að segja frá.

Í samtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, lýsti 13 ára stúlka því hvernig 10 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna nauðguðu henni nærri heimili hennar á Fílabeinsströndinni og skildu hana eftir liggjandi í blóði sínu. Árásarmennirnir hafa ekki verið látnir svara til saka.

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna segjast fagna skýrslunni og að hún verði könnuð gaumgæfilega. Nick Birnback, talsmaður Sameinuðu þjóðanna, segir þó ógerlegt að koma algerlega í veg fyrir að atvik sem þessi komi upp hjá stofnun þar sem allt að 200 þúsund manns starfi. Hins vegar sé nauðsynlegt að bregðast við rökstuddum ásökunum um misnotkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×