Erlent

Ísraelar fallast á Egypta sem sáttasemjara

Ísraelsstjórn samþykkti í morgun að styðja tilraunir Egypta til að miðla málum milli Ísraela og Hamas-liða á Gaza-svæðinu.

Ísraelsher var þó skipað að undirbúa hernaðaraðgerðir á Gaza ef friðarviðræður færu út um þúfur. Ísraelar hafa ákveðið að halda að sér höndum og reyna samningaleiðina eftir að Hamas-liðar sendu þeim handskrifað bréf frá Gilad Shalit, ísraelskum hermanni sem Hamas rændi fyrir tveimur árum. Mannránið varð kveikjan að Líbanonstríðinu 2006.

Shalit er enn í haldi og átti bréfið að færa sönnur á það að hann væri enn á lífi. Ísraelar setja það sem skilyrði fyrir friðarsamkomulagi að Shalit verði látinn laus, að Hamas liðar hætti vopnakaupum og láti af flugskeytaárásum á ísraelskt landsvæði frá Gaza.

En á sama tíma og ráðherrar funduðu í Jerúsalem í morgun vörpuðu ísraelskir hermenn sprengjum nærri húsi á suðurhluta Gaza-svæðisins. Þeim mun hafa verið beint gegn herskáum Hamas-liðum sem sagðir eru hafa ætlað að skjóta flugskeytum á ísraelskt landsvæði. Sex ára stúlka palestínsk stúlka í nærliggjandi húsi féll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×