Erlent

Telja tengsl á milli tveggja stærstu rána Danmerkur

MYND/AP

Danska lögreglan telur nú að tengsl séu á milli tveggja stærstu rána í danskri sögu, en bæði hafa verið framin á þessu ári.

Stærsta rán Danmerkur var framið 1. apríl en þá komust ræningjar á brott með 62 milljónir danskra króna, sem svarar til milljarðs íslenskra króna, eftir að hafa rænt fyrirtæki í Glostrup. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var svo aftur framið stórt rán, í þetta sinn í Bröndby, og komust ræningjarnir á brott með 60 milljónir danskra króna.

Lögregla segir ýmislegt benda til að ránin tengist, til að mynda sitji Svíar í haldi vegna síðarnefnda ránsins og að Svíar hafi einnig komið við sögu í því síðara.

Sjö manns hafa verið handteknir í tengslum við síðara ránið en tveim þeirra var sleppt í dag þar sem þeir tengjast ráninu ekki. Fjórir Svíar og einn Dani sitja enn í haldi vegna málsins en lögmaður eins Svíanna segir ómögulegt að hann hafi tekið þátt í ráninu því hann hafi setið í fangelsi þegar það var framið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×