Innlent

Styrmir lætur af störfum

Styrmir Gunnarsson hefur látið af störum sem ritstjóri Morgunblaðsins eftir rúmleg 40 ára veru á blaðinu. Starfsmenn Árvakurs kvöddu Styrmi með virktum í Hádegismóum í morgun.

Styrmir Gunnarsson hefur verið viðloðandi Morgunblaðið síðan hann hóf störf þar sem blaðamaður árið 1965. Það tók hann einungis sjö ár að verða einn af ritstjórum blaðsins og hefur hann verið í forystu þess síðan. Það hefur gengið á ýmsu í ritstjóratíð Styrmis og reifaði hann stærstu málin þegar hann fór yfir feril sinn í ávarpi til starfsmanna Árvakurs sem komu saman í morgun til að heiðra fráfarandi ristjóra sinn.

Styrmir talaði um náið samband Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn sem lauk formlega þegar þingfréttaritari blaðsins hætti að sitja fundi þingflokksins árið 1983. Tók hann þó fram að enn hafi verið tengsl við flokkinn allt þar til í fyrra þegar Geir H. Haarde myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Styrmir reifaði einnig erfið mál sem hann gekk í gegnum í störfum sínum sem ritstjóri. Nefndi hann meðal annars fjölmiðlamálið, átök við viðskiptablokkir í íslensku efnahagslífi og gagnrýni á íslenska bankakerfið. Eftirminnilegustu málin i huga Styrmis voru þó átökin um kvótakerfið sem og barátta blaðsins fyrir úrbótum í geðheilbrigðismálum.

Eftirmaður Styrmis er Ólafur Stephensen sem ritstýrt hefur 24 Stundum undanfarið ár. Ólafur er öllum hnútum kunnugur á Morgunblaðinu en hann var einn af ritstjórum blaðsins um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×