Innlent

Fyrrverandi tollverðir ákærðir fyrir brot í starfi

Andri Ólafsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun voru þingfestar ákærur Ríkissaksóknara gegn tveimur mönnum sem gefið er sök að hafa brotið af sér í opinberu starfi.

Mönnunum er gefið að sök að hafa misnotað sér aðstöðu sína þegar þeir kynntu sig fyrir tveimur konum sem tollverðir og sýndu skilríki því til staðfestingar á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur í janúar.

Eftir að hafa sýnt konunum skilríki sem staðfestu að þeir væru tollverðir tilkynntu þeir konunum að þeir væru við fíkniefnaeftirlit. Mennirnir óskuðu því næst eftir því að fá að leita á konunum. Þeir létu konunar halda uppi höndum á meðan þeir struku yfir líkama þeirra, niður eftir síðum og niður á mjaðmir.

Því næst fengu mennirnir að leita í tösku annarrar konunnar.

Öðrum manninum er svo gefið að sök að hafa haft á brott veski annarrar konunnar en í því var snyrtiveski, farsími og ýmis kort. Hinum manninum er svo gefið að sök að hafa verið með kortaveski konunnar í fórum sínum þegar hann var handtekinn skömmu síðar.

Sá fyrrnefndi neitaði sök þegar honum voru kynntar ákærurnar í morgun en sá síðarnefndi játaði.

Báðir mennirnir voru starfsmenn Tollstjórans í Reykjavík þegar málið komst upp en þeir hafa samkvæmt heimildum Vísis báðir látið af störfum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×