Innlent

Umsóknum um lán fjölgar hjá LÍN

Umsóknum um námslán hjá LÍN hefur fjölgað verulega miðað við sama tíma í fyrra. Fjórðungi fleiri umsóknir hafa borist vegna náms í Háskóla íslands.

Mun fleiri háskólanemar setjast á skólabekk í ár en í fyrra ef marka má fjölda umsókna um námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Þannig hefur umsóknum milli ára fjölgað um 15 prósent miðað við sama tíma í fyrra, en þær eru rúmlega sex þúsund talsins í ár.

Miðað við reynslu fyrri ára hefur um helmingur lánþega sótt um námslán á þessum tíma og því gefa þessar tölur ágæta vísbendingu um fjölgun milli ára.

Umsóknum vegna náms á Íslandi hefur fjölgað um 16 prósent og þar vekur athygli að umsóknum námslána vegna náms við Háskóla Íslands fjölgar um 25 prósent. Umsóknum í aðra skóla fjölgar um ellefu prósent.

Sífellt fleiri leita út fyrir landsteinana til að sækja sér menntun og fjölgar umsóknum vegna náms erlendis um nærri tólf prósent. Eru umsóknirnar um sextán hundruð talsins.

Langflestir lánþegar sækja nám í Danmörku eða um sjöhundruð talsins og fækkar þeim lítillega frá því í fyrra. Bandaríkin og Bretland heilla einnig en rúmlega 200 námsmenn þar hafa sótt um lán. Um hundrað lánþegar halda til Svíþjóðar í nám og Holland kemur þar á eftir, en lánþegum þar fjölgar um þrjátíu prósent miðað við sama tíma í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×