Innlent

Öryggisgæsla hjá Mæðrastyrksnefnd

Ragnhildur segir öryggisgæsluna hjá Mæðrastyrksnefnd hafa gefið góða raun og vera fyrirbyggjandi.
Ragnhildur segir öryggisgæsluna hjá Mæðrastyrksnefnd hafa gefið góða raun og vera fyrirbyggjandi. Fréttablaðið/GVA

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að veita Mæðrastyrksnefnd 800 þúsund króna styrk vegna öryggisgæslu á úthlutunardögum. Í vetur hafa tveir öryggisverðir frá Securitas verið að störfum á úthlutunardögum.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, segir þetta vera fyrirbyggjandi aðgerð. „Það hafa orðið smávægilegir núningar og við viljum ekki að það gerist aftur. Við viljum tryggja að allir séu öruggir,“ segir Ragnhildur.

Hún segir samsetningu þeirra sem sækja aðstoð til nefndarinnar hafa breyst. „Neysluvenjur fólks hafa breyst mjög mikið og þetta er orðinn harðari heimur. Fólki líður illa, það er óttaslegið og vansælt og sér fram á að geta ekki látið enda ná saman. Það getur skapað öryggisleysi og það getur haft ýmislegt í för með sér.“

Ragnhildur segir engin alvarleg tilvik hafa komið upp, en allur sé varinn góður. Annar öryggisvörðurinn stýrir umferð, en hinn er inni við þar sem afhending fer fram.

Mæðrastyrksnefnd sóti um styrk til velferðarráðs en umsóknin barst of seint fyrir styrkúthlutun fyrir árið 2008. Ráðið mælti með því við borgarráð að styrkurinn yrði veittur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×