Viðskipti innlent

Novator Properties tekur til starfa

Björgólfur Thor Björgólfsson á meirihluta í novator Properties ásamt föður sínum Björgólfi Guðmundssyni.
Björgólfur Thor Björgólfsson á meirihluta í novator Properties ásamt föður sínum Björgólfi Guðmundssyni.

Fasteignafélagið Novator Properties hefur tekið til starfa en félagið fjárfestir í hefðbundnum fasteignum sem og fasteignaþróunarverkefnum. Félagið er að 70% hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Tæp 30% eru í eigu innlendra og erlendra fjárfesta.

Um 80% eigna Novator Properties eru utan Íslands en flestar þeirra voru áður í eigu Samson Properties ehf., fasteignafélags í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Helstu eignir Novator Properties eru í Danmörku, Finnlandi, Búlgaríu og Króatíu auk Íslands.

Samson Properties ehf. verður dótturfélag hins nýja félags og sér alfarið um rekstur verkefna félagsins á Íslandi. Samson Properties vinnur að tveimur stórum þróunarverkefnum hér á landi, annars vegar uppbyggingu Listaháskóla Íslands í miðborginni og hins vegar þróun verslunar- og þjónustukjarna á efri hluta Laugavegar.

Forstjóri Novator Properties er Sveinn Björnsson en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Samson Properties frá stofnun þess árið 2006. Hjá Novator Properties starfa sérfræðingar á sviði fasteigna, fasteignaþróunar og fjármögnunar. Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir til Novator Properties, þeir Lyndon Dodd og Tomi Vannas. Báðir búa þeir yfir mikilli reynslu af fasteignatengdum rekstri og fjárfestingum.

Sveinn Björnsson segir hið nýja félag veita aukin tækifæri til vaxtar: „Novator Properties er vel í stakk búið að takast á við ný og spennandi verkefni. Félagið hefur á að skipa einvala starfsliði. Reynsla hópsins sem hjá félaginu starfar sem og sterk eiginfjárstaða gerir okkur kleift að skila árangri við núverandi aðstæður en á sama tíma færa út kvíarnar og kanna nýja markaði," segir Sverrir í tilkynningu frá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×