Erlent

Tugir þúsunda fanga í Flórída ólöglega skráðir sem kjósendur

MYND/AFP

Fyrsta kosningahneykslið er komið upp úr kafinu í Flórída og það þremur vikum fyrir sjálfar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Tugir þúsunda fanga í Flórída eru ólöglega skráðir sem kjósendur í ríkinu.

Hópur ransóknarblaðamanna á vegum blaðsins Sun-Sentinel hefur komist að því að um 30.000 fangar sem enn eru í haldi eru nú skráðir sem kjósendur í Flórída fyrir komandi forsetakosningar. Slíkt er bannað með lögum í ríkinu. Hluti þeirra, eða tæplega 5.000, hefur oft kosið áður þrátt fyrir að sitja í fangelsi. Demókratar hafa mun meira fylgi en repúblikanar meðal þessara fanga því tveir af hverjum þremur sem skráðir eru ætla að kjósa Barack Obama.

Yfirmaður kjörstjórnar í Flórída viðurkennir að embætti hennar hafi gert mistök með því að taka þessa fanga ekki af kjörskrá. Ástæðuna segir hún vera mannaskort hjá embættinu og fjölda af nýjum kosningalögum.

Flórída er eitt þeirra ríkja sem geta ráðið úrslitum í forsetakosningunum eins og berlega kom í ljós þegar George Bush vann John Kerry í síðustu kosningum með því að vinna í ríkinu. Sá sigur olli síðan miklum deilum um kosningasvik af hálfu Repúblikanaflokksins þar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×