Erlent

Ekki er allt gull sem glóir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ekki er allt gull sem glóir. Þessu komust þrír Kínverjar að eftir fyrsta smygl sinnar tegundar inn í Kína. Kínverjarnir þrír fundu undarlegan hnullung úr skínandi málmi á skransölu í Kyrgystan.

Þeir sannfærðust þegar um að þeir hefðu fundið hlunk úr gulli og hugðu heldur gott til glóðarinnar. Þeir skutu saman öllu sínu fé og keyptu hnullunginn fyrir sem nemur 150.000 krónum. Þessu 274 kílógramma stykki smygluðu þeir svo til Kína með ærinni fyrirhöfn og földu á heimili tengdaföður eins þeirra. Þeir undruðust þó mjög að hnullungurinn dýrmæti glóði í myrkri og lýsti af honum allar nætur.

Til að ganga úr skugga um verðmæti dýrgripsins söguðu þeir af honum litla flís með mikilli fyrirhöfn og lögðu á sig ferðalag til Beijing þar sem þeir báðu vísindamenn að rannsaka hlutinn. Ráku vísindamennirnir upp stór augu þegar þeir áttuðu sig á því að þeir voru með mjög geislavirkt úran í höndunum og létu þegar handtaka þremenningana. Dómari sýknaði mennina þó nokkru síðar með því að þótt harðbannað væri að smygla úrani inn í Kína þyrfti ásetningur að fylgja glæpnum en smyglararnir höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru með í höndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×