Viðskipti innlent

Guðbjörg gat selt á fyrirfram ákveðnu verði

Guðbjörg Matthíasdóttir
Guðbjörg Matthíasdóttir

Glitnir banki hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Vísis og Stöðvar 2 um sölu Guðbjargar Matthíasdóttur á stórum hluta af bréfum sínum í Glitni síðasta virka daginn fyrir þjóðnýtingu.

Vegna fréttaflutnings á Stöð 2, í Fréttablaðinu og á vísir.is þess efnis að „Guðbjörg Matthíasdóttir hafi selt lungann úr 1,71% hluti sínum Glitni á fimmtudaginn 25. eða föstudaginn 26. september korteri áður en bankinn var þjóðnýttur", þá vill Glitnir taka fram eftirfarandi:

Umrædd sala félags í eigu Guðbjargar á hlutum í Glitni byggði á samningi, dags. 4. september 2007, sem veitti félagi í eigu Guðbjargar rétt til að selja hluti í Glitni á fyrirfram ákveðnu tímabili og á fyrirfram ákveðnu verði. Tímabil þetta var frá 25. september 2008 til og með 27. september 2008. Var umrædd sala þannig í fullu samræmi við efni viðkomandi samnings og með öllu óviðkomandi atburðum sem áttu sér stað helgina 27. - 28. september og sem tilkynnt var um að morgni mánudagsins 29. september.

Glitnir harmar að fjölmiðlar skuli láta í veðri vaka með óábyrgum fréttaflutningi að umrædd sala hafi tengst fyrrgreindum atburðum, þegar salan þvert á móti byggði á skýru orðalagi ársgamals samnings sem átti samkvæmt orðum sínum að efna á þeim tíma sem hann var efndur.

Árétting frá fréttastjóra:

Ásökunum Glitnis um óábyrgan fréttaflutning er vísað á bug. Ítrekað var reynt að afla upplýsinga um sölu Guðbjargar á hlutnum og þá á hvaða gengi Guðbjörg hefði selt hlutinn. Enginn svör fengust úr herbúðum Glitnis og heldur ekki frá Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, ráðgjafa Guðbjargar, sem neitaði að gefa upp sölugengi á hlutnum. Ítrekað var reynt að ná í Guðbjörgu við vinnslu fréttarinnar en án árangurs.

Hins vegar skal það leiðrétt að Gunnlaugur Sævar var ekki veislustjóri í fimmtugsafmæli Davíðs Oddssonar eins og hermt var í fréttinni. Hann var veislustjóri í fimmtugsafmæli Kjartans Gunnarssonar sem var aftur veislustjóri í fimmtugsafmæli Davíðs Oddssonar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×