Erlent

Orsaka flugslyssins leitað

MYND/AP
Sérfræðingar í flugslysum rannsaka nú flak flugvélarinnar sem fórst á flugvellinum í Madrid í gær með þeim afleiðingum að 153 létu lífið. Rannsóknarmennirnir munu leita að vísbendingum um orsök slyssins í flakinu auk þess sem flugritar verða skoðaðir en þeir fundust í nótt.

Bráðabirgðalíkhúsi hefur verið komið upp þar sem aðstendur fórnarlambana reyna nú að bera kensl á ættingja sína. Nítján farþegar lifðu slysið af en sum þeirra eru enn í lífshættu. Af þeim sem létust voru tuttugu börn og tvö ungabörn. Vélin, sem flaug undir merkjum Spanair sem er í eigu SAS var á leið til borgarinnar Las Palmas á Kanaríeyjum með 172 innanborðs. Frásagnir sjónarvotta að slysinu benda til þess að eldur hafi komið upp í einum hreyfli vélarinnar stuttu eftir flugtak eða meðan á því stóð.

Vélin tafðist í gær sökum þess að flugmaðurinn sá á mælum sínum óeðlilega mikinn hita í hreyflunum rétt fyrir flugtak. Vélinni var þá snúið við og málið rannsakað. Klukkutíma síðar hóf hún sig til flugs með þessum skelfilegu afleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×