Innlent

Segir forsendur brostnar fyrir opinberri eigu HS

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

„Þegar Grindavík seldi okkur var miðað við að æskilegt væri að Hitaveita Suðurnesja yrði í eigu opinberra aðila. En í ljósi þess að núverandi meirihluti er myndaður af Reykjanesbæ og Geysi Green Energy, og í ljósi nýrra laga frá Alþingi, eru þær forsendur brostnar," segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveitan samþykkti nýverið að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, og hefur fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu, Svandís Svavarsdóttir, gert athugasemd við að ekki sé tryggt að auðlindirnar haldist í eigu almennings.

Guðlaugur bendir á að meirihlutasamstarf GGE og Reykjanesbæjar sé sterkt. Reynt hafi verið að fá hluthafasamþykkt fram, sem átti að tryggja hagsmuni minnihlutans, en því hafi verið hafnað.

„Við höfum því skilið það svo að menn ætluðu í uppskiptingu fyrirtækisins og það hefur engu skipt hvort um sveitarfélög er að ræða eða ekki," segir hann. Hitaveitan sé nú allt annað fyrirtæki en þegar hluturinn var keyptur.

Þann 1. desember var Hitaveitu Suðurnesja skipt í tvennt. HS-Veita á að sjá um dreifingu orkunnar, og HS-Orka um framleiðslu og sölu hennar. Samkvæmt nýjum orkulögum skulu opinberir aðilar eiga dreifingarfyrirtæki, en einkaaðilar mega eiga framleiðslufyrirtæki.

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindarvíkur tekur í svipaðan streng og Guðlaugur, nú sé „nýr tími í öllu tilliti".

„Ég myndi segja að ríkið sjálft hafi gefið tóninn í þessu þegar það steig fram og seldi sinn hlut. Þá hófst þessi darraðadans allur. En HS-Veita verður þó í eigu almennings áfram," segir hún. Jóna hefði líka viljað sjá hluthafasamþykkt ganga í gegn.

Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir bæjarfélagið hafa áhuga á að styrkja stöðu sína í veitufyrirtækinu. „Við höfum sýnt því mikinn áhuga og það fer enginn [opinber aðili] út úr henni nema með því að selja öðrum slíkum," segir hann. Reykjanesbær muni engu að síður halda einhverjum hlut í samkeppnisfyrirtækinu HS-Orku. Ekki náðist aftur í Árna til að spyrja hann um hluthafasamþykktina, sem var hafnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×