Skoðun

Atvinna eða efniskaup?

Fái borgin lánsfé til framkvæmda er mikilvægt að það verði nýtt með sem bestum hætti, að framkvæmdirnar séu nauðsynlegar og að þeim sé forgangsraðað þannig að hlutfall efniskostnaðar sé sem minnst á móti launakostnaði, til að hægt sé að skapa sem flest störf. Samfylkingin og Vinstri græn munu róa að því öllum árum að tryggja að mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir fái forgang umfram stofnframkvæmdir með hlutfallslega miklum efniskostnaði.

Framkvæmda- og eignasvið hefur fengið heimild til að taka 6 milljarða að láni til framkvæmda. Það lán verður að líkindum kostnaðarsamt fyrir borgina, vegna þeirra aðstæðna sem nú eru á lánamarkaði. Sá kostnaður er réttlættur með því að mikilvægt sé að halda uppi atvinnustigi. Það er því óásættanlegt að meirihlutinn hyggist ekki setja mannaflsfrekar framkvæmdir í forgang.

Á framkvæmdasviði hefur verið unnin áætlun um mannaflsfrek viðhaldsverkefni. Um er að ræða 350 nauðsynleg viðhaldsverkefni á vegum borgarinnar sem samanlagt er áætlað að kosti 2,2 milljarða króna og að af þeirri upphæð fari rúmlega 1,4 milljarðar í launakostnað, sem gæti skapað allt að 400 ársstörf. En þessar framkvæmdir eru ekki inn í drögum að fjárhagsáætlun borgarinnar, 6 milljarða framkvæmdalánið á allt að fara í svokallaðar stofnframkvæmdir.

Fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað óskað eftir því framkvæmdir verði greindar eftir því hversu mannfrekar þær eru en án árangurs. Raunar var upplýst á síðasta fundi framkvæmdaráðs að það yrði ekki gert en að miða megi við að hvert starf kosti um 20 milljónir. Það má því gera ráð fyrir að hluti launa á móti efniskostnaði sé innan við 20%. Þetta þýðir að fyrir 6 milljarða lán verða aðeins sköpuð 300 ársverk. Á sama tíma er áætlun um framkvæmdir sem kosta 2,2 milljarða og skapa um 400 störf stungið undir stól.

Að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir er yfirlýst stefna borgarinnar og einn af hornsteinum þverpólitískrar aðgerðaráætlunar hennar. Okkur ber skylda til að gera það sem við getum til að skapa atvinnu. Minnihlutinn í borgarstjórn mun ekki sætta sig við að framkvæmdaláni, sem borgin fær vonandi, verði að stærstum hluta ráðstafað í efniskaup.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×