Erlent

Suu Kyi áfram í stofufangelsi

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, verður í stofufangelsi í að minnsta kosti hálft ár í viðbót. Þetta hefur Reuters eftir heimildarmanni innan herforingjastjórnarinnar í landinu.

Starfsmaður á vegum stjórnarinnar mun hafa farið á heimili Suu Kyi og lesið upp þennan úrskurð. Suu Kyi, sem er friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur setið samfleytt í stofufangelsi frá 30. maí 2003 og þrátt fyrir umleitanir Sameinuðu þjóðanna hefur leiðtoginn ekki losnað úr prísundinni.

Alls hefur hún setið í stofufangelsi í tólf af síðustu átján árum. Flokkur hennar vann sigur í kosningum í landinu fyrir 18 árum en herstjórnin ógilti hins vegar þær niðurstöður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×