Innlent

Kráareigendur mótmæla áfengisgjaldinu harðlega

Kormákur Geirharðsson annar eigenda Ölstofu Kormáks og Skjaldar er í félagi kráareigenda.
Kormákur Geirharðsson annar eigenda Ölstofu Kormáks og Skjaldar er í félagi kráareigenda.

Félag Kráareigenda mótmælir harðlega aðförum stjórnvalda að veitingastöðum með hækkun áfengisgjalda.Með þessari hækkun eru stjórnvöld að beina viðskiptum frá veitingahúsum,

sem eru einkarekin fyrirtæki, til vínbúða, sem eru í eigu ríkisins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Þar segir ennfremur að með þessu sé verið að stuðla að miklum erfiðleikum í rekstri veitingahúsa, enda deginum ljósara að veitingamenn neyðist til að mæta hækkun áfengisgjalda með frekari verðhækkunum en hafa nú þegar átt sér stað í kjölfar veikingar krónunnar og hækkunum birgja.

„Með þessu eru stjórnvöld að beina neyslu áfengis í heimahús með þeim hætti að viðskiptavinir veitingastaða koma seinna í miðborgina og undir meiri áhrifum en áður sem eykur álag á lögregluna.Lögreglan mun þar með bæði þurfa að taka á auknu álagi í miðborginni auk þess að þurfa að sinna fleiri verkefnum í úthverfum."

Þá segir í yfirlýsingunni að niðurstaða nefndar um betri miðborg, sem starfrækt var á vegum Reykjavíkurborgar og í samráði við hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli, var að veitingastaðir væru betur til þess fallnir að sinna þeim sem kjósa að njóta áfengis en einstaklingar í heimahúsum.

„Auk þess væri öryggi manna betur borgið innan veggja veitingastaðanna. Þá var ennfremur sett fram það markmið í skýrslu nefndarinnar að beina fólki fyrr niður í miðbæ, en þessu markmiði er augljóslega stefnt í hættu verði áfengi dýrara á veitingastöðum en það er nú þegar. Þessu til viðbótar má leiða líkur að því að veitingastaðir miðborgarinnar muni fá skellinn í umfjöllun fjölmiðla, verði áðurnefnd vandamál að veruleika.

Hækkun verðlags getur auk þess haft umtalsverð áhrif á umfang ferðaþjónustu hér á landi, og því viðbúið að verslun ferðamanna á veitingahúsum bæjarins dragist saman, þegar yfirvofandi verðhækkanir áfengis verða að veruleika."

Þá segir að veigingamenn hafi tekið mikinn skell á undanförnum árum og megi þar benda á að reykingarbannið hafi verið illa ígrundað og í raun illa unnið þannig að ekki hefur enn skapast um það sátt.

„Áfengisgjald á sterkt áfengi hækkaði um 15% árið 2002 og svo um 7% árið 2004, og nú bætist við þriðja hækkunin á einungis 6 árum. Vert er að geta þess að í nágrannalöndum okkar er áfengisgjald margfalt lægra en það er hér á landi, jafnvel fyrir þessa hækkun.

Með nýsamþykktri hækkun áfengisgjalda teljum við að vegið sé alvarlega að okkar starfsumhverfi og viljum benda á að í gegnum tíðina hefur veitingastarfsemi sætt einna mestum álögum frá ríki og borg af öllum stéttum landsins. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×