Innlent

Stúdentar mótmæla niðurskurði

Námsmenn gera „stórvægilegar“ athugasemdir við sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá helstu félögum námsmanna er harðlega gagnrýnt að fjárframlög til LÍN skuli vera skert um það sem nemur 1.360 milljónum og ríkisútgjöld til menntunar, háskóla, rannsókna og framhaldsskóla séu „duglega dregin saman.“

„Ríkisstjórn reiknar með fimm prósenta aukningu í umsóknum námslána þegar aðsókn í menntun á háskólastigi er í sögulegu hámarki þegar heilir atvinnuvegir hverfa," segir í tilkynningunni. „Við bendum jafnframt á að ef mennta- og lánasjóðskerfið stendur ekki fyrir sínu er hætt við að stór hópur sem misst hefur störf sín endi á atvinnuleysisbótum sem ríkið fær aldrei greiddar til baka."

Námsmennirnir segjast gera sér fulla grein fyrir nauðsyn samdráttar í ríkisbúskap og allsherjarniðurskurði enda skelli á námsmenn þungar byrðar víða í þjóðfélaginu. Einungis sé bent á þá þversögn er felst í því að ætla að byggja hér upp mennta- nýsköpunar og rannsóknarsamfélag en geta síðan ekki staðið undir því.

„Undirritaðar náms- og stúdentahreyfingar sendu Menntamálaráðherra, Menntamálaráðuneytinu og menntamálanefnd þingsins bréf dagsett 14. nóvember síðastliðinn þar sem við lýstum yfir áhyggjum vegna ástandsins, buðum fram stefnu og óskir, en engin svör hafa borist fyrr en óðaniðurskurður er tilkynntur. Stúdentahreyfingar landsins eru mjög ósáttar við þau vinnubrögð sem höfð hafa verið uppi í þessu tilviki og spyrja hvort þetta sé sú svörun sem við eigum að venjast í framtíðinni?

Að lokum er farið fram á að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína og marki „skýra og raunhæfa"stefnu í mennta- og lánasjóðsmálum.

Undir yfirlýsinguna rita:

Stúdentaráð Háskóla Íslands, Stúdentaráð Háskólans í Reykjavík, Stúdentaráð Háskólans á Akureyri, Stúdentaráð Menntavísindasviðs HÍ, Listaháskóli Íslands, SÍF og SÍNE.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×