Innlent

Eldur í fjölbýlishúsi í Árbæ

Litlu mátti muna í Árbænum um klukkan fimm í morgun þegar kveikt var í dagblaðabunkum við útidyr í Hraunbæ 4 og 6. Eldurinn náði ekki að breiða sig út á númer 4 en í Hraunbæ 6 læsti hann sig í útidyrahurðina og náði inn í stigagang.

Við það myndaðist mikill svartur reykur sem smaug inn í íbúðir. Þar sem eldurinn logaði við útidyrnar komust íbúarnir ekki út og héldu til á svölum fjölbýlishússins uns slökkvilið hafði ráðið niðurlögum eldsins.

Ekki er vitað á þessari stundu hverjir kveiktu í en lögregla rannsakar málið. 18 íbúar eru skráðir til heimilis að Hraunbæ 6 og 24 í Hraunbæ 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×