Innlent

Undrast verðmætamat meirihlutans

Laugavegshúsin voru keypt á 580 milljónir.
Laugavegshúsin voru keypt á 580 milljónir.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík undrast verðmætamat meirihlutans í borginni. Hann bendir á að eitt glæsilegasta hús landsins, Fríkirkjuvegur 11, hafi verið selt fyrir litlu hærri upphæð en kostaði að greiða fyrir húsin á Laugavegi 4-6. Hann segir blasa við að meirihlutinn hafi notað almannafé til þess að „kaupa ónýt hús fyrir 580 milljónir og fjármagna þau kaup með sölu á einu glæsilegasta og virðulegasta húsi borgarinnar."

Óskar lagði fram bókun í borgarráði Reykjavíkur í gær þegar ákveðið var að taka kauptilboði Novators, sem falaðist eftir Fríkirkjuveginum sem upphaflega var í eigu Thors Jensen, langafa Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Í bókuninni segir meðal annars: „Salan á einu glæsilegasta húsi Reykjavíkur vekur upp spurningar um fasteigna- og fjárfestingarstefnu meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks. Fyrir tæpum þremur mánuðum keyptu þessir flokkar húsin við Laugaveg 4-6 og Skólavörðustíg 1A fyrir 580 milljónir króna. Núna eru þessir sömu flokkar að selja Fríkirkjuveg 11 fyrir 600 milljónir og hestagerðið, sunnan hússins, fyrir 50 milljónir, samtals 650 milljónir."

Fríkirkjuvegur 11 var seldur á 600 milljónir auk þess sem greiddar verða 50 milljónir fyrir hestagerði sunnan hússins.
Í bókuninni segir einnig að færa megi fyrir því rök að kaupin á Laugavegi 4-6 séu fjármögnuð með sölunni á Fríkirkjuvegi 11. „Þegar þessi fasteignaviðskipti eru skoðuð í samhengi þá blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn og F-listinn hafa notað almannafé til þess að kaupa ónýt hús fyrir 580 milljónir og fjármagna þau kaup með sölu á einu glæsilegasta og virðulegasta húsi borgarinnar. Þessi samanburður er ömurlegur en því miður staðreynd," segir að lokum í bókuninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×