Innlent

Aðstoðarvegamálastjóri ætlar að kæra Árna Johnsen

Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, ætlar að kæra Árna Johnsen alþingismann til lögreglu fyrir ummæli sem Árni viðhefur í Morgunblaðinu í dag. Gunnar segir vegið að sér sem opinberum starfsmanni og lögfræðingi. Í greininni lætur Árni að því liggja að Gunnar hafi verið skipaður í nefnd um samgöngur til Vestmannaeyja með það að markmiði að fá fram vilja fyrrverandi samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar í málinu.

Árni segir Sturlu hafa viljað höfn í Bakkafjöru hvað sem liði öðrum hugmyndum og rökum fyrir þeim. „Ef nefndarmenn í úttektarnefndinni komu með tillögur um að skoða ýmsa þætti betur, þá var það slegið út að (svo)borðinu með orðum aðstoðarvegamálastjóra, lögfræðingnum í nefndinni. Hann stjórnaði sem sagt gangi mála og þess vegna varð vinna nefndarinnar varðandi jarðgangamöguleika eða nýs Herjólfs til Þorlákshafnar fúsk eitt."

Þá segir Árni furðu sæta að Gunnar, sem er lögfræðingur, skuli hafa verið skipaður í nefndina, „enda stílbrot. Hann reyndist þægur," segir Árni.

Undir þessu vill Gunnar Gunnarsson ekki sitja og ætlar því að kæra þingmanninn. Yfirlýsing hans fer hér á eftir:

„Ég ætti í sjálfu sér að láta skrif Árna Johnsen um mig í Morgunblaðinu í dag, 26. apríl, mér í léttu rúmi liggja. Það er hins vegar ekki víst að allir aðrir geri það. Í grein þessari er vegið að mér sem opinberum starfsmanni og lögfræðingi. Því hef ég ákveðið að kæra Árna Johnsen til lögreglu fyrir brot á 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 242. gr. sömu laga. Þar kemur fram, að hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er opinber starfsmaður og móðgunin eða aðdróttunin varðar að einhverju leyti starf hans, þá skal slíkt brot sæta opinberri ákæru eftir kröfu hans.

Það er ekki óvenjulegt, að opinberir starfsmenn þurfi að sitja undir rógi og dylgjum, en það er fátítt, að slíkt komi frá alþingismönnum. Það er Sjálfstæðisflokknum og íslensku þjóðinni til skammar, að þessi maður skuli geta skrifað undir greinar í fjölmiðlum sem alþingismaður."

Undir yfirlýsinguna ritar Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×