Erlent

Sæti í Öryggisráðinu sagt í hættu

Óli Tynes skrifar

Fjölmiðlar á Norðurlöndunum eru farnir að velta því fyrir sér hvort efnahagskreppan á Íslandi verði til þess að landið fái ekki sæti í öryggisráðinu. Kosið verður í ráðið næstkomandi föstudag.

Það eru þrjú lönd sem sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu Ísland, Austurríki og Tyrkland. Norska blaðið Aftenposten segir að það sé svo jafnt með þeim að ómögulegt sé að spá um úrslitin.

Talið sé mögulegt að efnahagskreppan á Íslandi geti ráðið þar úrslitum. Þá sé deilan við Breta notuð gegn Íslandi í þeim hrossakaupum sem eigi sér stað í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Aftenposten talar við Kristínu A. Árnadóttur sem leiðir sókn Íslands í Öryggisráðið. Hún telur ekki að þetta hafi áhrif. Kristín bendir á að kreppan nái til allrar heimsbyggðarinnar.

Aftenposten talar einnig við Morten Wetland, sendiherra Noregs hjá Sameinuðu þjóðunum. Wetland segir að Noregur styðji ekki Ísland vegna efnahagslegrar stöðu þess, hver sem hún sé, heldur þeirra gilda sem landið stendur fyrir.

Hann segir að Norðmenn og muni áfram styðja Ísland með ráðum og dáð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×