Erlent

Sérsveitarmaður gleymdi skammbyssu á Starbucks

Hann er í vondum málum breski sérsveitarmaðurinn sem gleymdi skammbyssu sinni á Starbucks kaffihúsi í Lundúnum á föstudaginn.

Breska götublaðið Sun segir manninn lífvörð Tony Blairs, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og sérlegs samningamanns í friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Sérsveitarmaðurinn mun hafa gleymt hálfsjálfvirkri Glock sautján skammbyssu sinni á salerni Starbucks kaffihússins.

Það var lán í óláni að óprúttnir menn fundu ekki byssuna. Sá sem það gerði hringdi þegar á neyðarlínuna. Lögregla var send á staðinn til að sækja byssuna. Sérsveitarmaðurinn hefur verið leystur tímabundið frá störfum meðan málið er í rannsókn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×