Innlent

Víst búið að tryggja nægjanlegt fé fyrir utangarðsmenn

Nægjanlegt fé hefur verið tryggt til að fylgja fjögurra ára stefnu í málefnum utangarðsmanna, að sögn Halls Magnússonar, varaformanns Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag stefnu til næstu fjögurra ára í málefnum utangarðsfólks. Hún felur meðal annars í sér að auka reglubundna þjónustu, styrkja tímabundin úrræði og fjölga langtímaúrræðum. Björk Vilhelmsdóttir og Marsibil Sæmundardóttir, fulltrúar Samfylkingar og óháðra í velferðarráði, sögðu í samtali við Vísi í dag að hugmyndin að stefnunni væri góð en að fé fylgdi ekki fyrirheitunum.

Hallur segir að fé hafi verið tryggt. „Það er fyrir neðan virðingu Bjarkar og Marsibil að halda öðru fram í fjölmiðlum gegn betri vitund," segir hann. Hallur bendir á bókun meirihluta velferðarráðs máli sínu til stuðnings. Þar komi skýrt fram að fjármagn vegna aðgerðaáætlunar verði tryggt í fjárhagsáætlun ársins 2009 og 3ja ára áætlun Reykjavíkurborgar til ársins 2011.

Hallur furðar sig á ummælum Þorleifs Gunnlaugssonar um fjölmiðlafarsa í dag. Honum hafi verið boðið að vera viðstaddur fjölmiðlafund sem haldinn hafi verið þegar aðgerðaráætlunin hafi verið kynnt. Borgarstjóri og formaður borgarráðs hafi jafnframt verið viðstödd til að undirstrika mikilvægi þessarar stefnu sem verið var að kynna. „En Þorleifi var boðið að vera viðstaddur fjölmiðlafundinn og hafði allar forsendur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þar," segir Hallur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×