Innlent

Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 14 prósent á einu ári

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda jókst úr rúmum 3,7 milljónum tonna árið 2005 í rúm 4,2 milljónir árið 2006. Aukningin nemur 525 þúsund tonnum eða 14 prósentum. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman fyrir skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn.

Segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu að aukningin sé mun meiri en spár hafi gert ráð fyrir. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur óskað eftir nýrri spá frá Umhverfisstofnun og mati á því hvort líkur séu á að Ísland fari fram úr skuldbindingum sínum samkvæmt Kýótó-bókuninni.

Stærstur hluti aukningar frá áliðnaði

Fram kemur í tilkynningunni að stærsta hluta aukningarinnar megi rekja til aukinnar losunar frá áliðnaði, sem jókst um 404 þúsund tonn milli 2005 og 2006, eða um 89 prósent. Aukningin er öll frá álveri Norðuráls á Grundartanga og tengist stækkun álversins þar.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum jókst um 146 þúsund tonn milli áranna 2005 og 2006, eða um 17 prósent, að langmestu leyti vegna vegasamgangna. Umhverfisráðherra óskar eftir því að Umhverfisstofnun skoði losun frá samgöngum og beri saman losun á mann á Íslandi og í öðrum ríkjum sem bera skuldbindingar í loftslagsmálum.

Losun frá sjávarútvegi dróst hins vegar saman um 113 þúsund tonn á milli áranna 2005 og 2006, eða um rúm 15 prósent. Samdráttur var í losun bæði frá fiskiskipaflotanum og fiskimjölsverksmiðjum. Losun frá landbúnaði jókst um 33 þúsund tonn, eða um tæp 7 prósent.

Á árunum 1990 til 2006 jókst losun gróðurhúsalofttegunda um nærri fjórðung. Á skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, 2008-2012, má losunin á Íslandi ekki aukast meira en 10 prósent miðað við losun árið 1990. Að auki hefur Ísland sérstaka heimild til aukningar á losun koldíoxíðs frá stóriðju, íslenska ákvæðið.

Ráðherra fundar með álfyrirtækjum

„Auk þess að óska eftir nýrri losunarspá frá Umhverfisstofnun, mun ráðherra boða fulltrúa álfyrirtækjanna til fundar til þess að ræða skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Árangur hefur náðst á undanförnum árum í minnkun á losun PFC og hefur losunin hérlendis síðustu ár verið með því lægsta sem þekkist á tonn af framleiddu áli. Yfirleitt er nokkur aukning á losun í upphafi starfstíma álvera eða þegar nýjar framleiðslueiningar eru teknar í notkun. Á fundinum með álfyrirtækjunum verður farið yfir þessa losun, hvort hætta sé á því að hún verði meiri en spáð hafði verið og til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa ef í það stefnir," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×