Skoðun

Tvíeggjað sverð

Helgi Helgason skrifar

Með hliðsjón af því sem hefur verið að gerast í Georgíu verðum við Íslendingar að spyrja okkur að því hvort við viljum virkilega taka þá áhættu að Rússar eigi hér efnahagslegra hagsmuna að gæta. Hér er ég að tala um olíuhreinsunarstöð sem einhverjir aðilar virðast vinna hörðum höndum að koma á fót á Vestfjörðum. Ég segi einhverjir aðilar vegna þess að það er með þessa olíuhreinsunarstöð líkt og með Fréttablaðið forðum, það virðist vera farið með það sem mannsmorð hverjir eigi fyrirtækið. Þó hefur það vitnast að stöðin verði í eigu rússneskra aðila en ekki hverra.

Rússar hafa farið hamförum í Georgíu og Ossetíu. Ekki einungis hafa traust vitni borið þeim illa söguna heldur hafa borist af þeim myndir þar sem klárlega sést að rússneskir hermenn haga sér eins og verstu níðingar. Og við skulum athuga það að voðaverk Rússa eru mjög sennilega framin að skipun valdhafa í Moskvu. Ofan í allt saman ljúga svo rússneski forsetinn, forsætisráðherrann og hershöfðingjar til um brottflutning rússneska hersins eins og um var samið í vopnahléssamkomulagi milli Georgíu og Rússlands að tilstuðlan vesturvelda.

Nú eru Rússar farnir að efla heraflann sinn að nýju. Flugvélar þeirra eru farnar að fljúga framhjá og umhverfis Ísland á nýjan leik. Rússneski sendiherrann á Íslandi sagði í viðtali í sjónvarpinu, með þjósti, að Íslendingar ættu bara að sætta sig við þetta. Þegar fréttamaðurinn spurði sendiherrann eitthvað í þá veruna hvort svona hátterni væri sæmandi í garð vinaþjóðar þá kom hik á hann og augun hringsnerust í hausnum á honum. Mér fannst eins og í þögninni og hikinu hjá honum fælust orðin: „Við erum ekki vinaþjóð ykkar."

Það er undarlegt fyrir mig sem gömlum NATO-sinna og sjálfstæðismanni að enda þessa grein á því að biðla til ráðherra Samfylkingarinnar um að koma í veg fyrir þessi áform um olíuhreinsunarstöð. Á hugsjónalausu hagsmunasamtökin sem kalla sig Sjálfstæðisflokk er ekki lengur að treysta.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og formaður Frjálslynda flokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×