Viðskipti innlent

Ísland gæti orðið nær óháð erlendum orkugjöfum

Ísland gæti innan skamms orðið nær óháð erlendum orkugjöfum samhliða komandi fjöldaframleiðslu á rafmagns- og tengil-tvinnbílum Stefnumarkandi fundur bílaframleiðenda og orkufyrirtækja í Reykjavík verður haldinn í september.

 

Stærstu bílaframleiðendur heims, helstu orkufyrirtæki Norðurlanda og leiðandi alþjóðleg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar í rafvæðingu samgangna koma saman í Reykjavík átjánda og nítjánda september næstkomandi til að ræða komandi byltingu í rafmagnssamgöngum á næstu fimm árum.

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er verndari ráðstefnunnar Driving Sustainability, alþjóðlegs vettvangs fyrir orkulausnir í samgöngum og mun opna hana klukkan 09:05 að morgni fimmtudagsins 18. september.

 

Hátt settir stjórnendur bílaframleiðendanna Toyota, Ford, og Mitsubishi munu á ráðstefnunni veita innsýn í tæknilausnir sem miða að sjálfbærum samgöngum og munu standa neytendum til boða frá næsta og þarnæsta ári. Stærstu orkufyrirtæki Norðurlanda, Vattenfall í Svíþjóð og Dong Energy í Danmörku, vinna nú hörðum höndum að innleiðingu rafmagns í samgöngum, og munu þau skýra ráðstefnugestum frá áætlunum sínum. Hækkandi olíuverð, hröð þróun í rafhlöðum og hátækni leiðir þessa byltingu.

 

Volvo og Saab eru í samstarfi við Vattenfall um innleiðingu tengil-tvinnbíla í Svíþjóð, en þeim bílum má stinga í samband og aka tugi kílómetra á rafmagni áður en hefðbundin bílvél tekur við. Renault-Nissan samsteypan er hins vegar í samstarfi við Dong Energy, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur um innleiðingu rafmagnsbíla og rafhlöðuskiptistöðva þar í landi ásamt bandaríska fyrirtækinu Better Place. Þá munu yfirmenn Mitsubishi Heavy Industries í Japan fjalla um hlutverk bifreiða í sjálfbærum orkuinnviðum og Mitsubishi Motors kynna rafmagnsbílinn MiEV en fjöldaframleiðsla á honum hefst á næsta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×